Landsnet hefur nú hafið á ný vinnu að valkostagreiningu og mat á umhverfisáhrifum fyrir bætta tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið.
Nýjustu upplýsingar
24.04.2018
Skipulagsstofnun hefur nú, 24. apríl 2018 lagt fram til kynningar tillögu að matsáætlun fyrir Suðurnesjalínu 2. Landsnet kynnti drög að matsáætlun í janúar. Athugasemdir bárust og unnið hefur verið úr þeim. Skipulagsstofnun sendir sveitarfélögunum fjórum á fyrirhugaðri línuleið tillöguna til umsagnar sem og Ferðamálastofu, Heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja, Minjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Umhverfisstofnun og Vegagerðinni. Auk þess getur almenningur gert athugasemdir sem skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 11. maí 2018 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis, Borgartúni 7b, 105 Reykjavík eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is
Eftir atvikum mun Skipulagsstofnun óska eftir viðbrögðum Landsnets við innkomnum umsögnum og athugasemdum og grundvelli fyrirliggjandi gagna taka ákvörðun um tillöguna eftir fjórar vikur.
Tillögu að matsáætlun, athugsemdir sem bárust við drög að matsáætlun sem og viðbrögð Landsnets við þeim má finna undir Samráðshnapp, sjá neðar á þessari síðu.
Um verkefnið
Megintilgangur verkefnisins er að auka afhendingaröryggi á raforku á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir tengingu milli tengivirkjanna í Hamranesi í Hafnarfirði og Rauðamel í Grindavík.
Hlutverk okkar samkvæmt raforkulögum er að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Við undirbúning á verkefni eins og þessu þarf m.a. að taka tillit til þróunar á flutningsþörf, áætlunum um atvinnuuppbyggingu, hagkvæmni uppbyggingar, áhrifa á landeigendur, rekstraröryggi notenda og gæði raforku. Þá er mikilvægur hluti undirbúnings að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna, með það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að samvinnu hagsmunaðila og annarra er láta sig málið varða.
Undirbúningur vegna Suðurnesjalínu 2 hefur staðið lengi yfir. Verkefnið var á sínum tíma hluti af mun umfangsmeira umhverfismati Suðvesturlína, en nú afmarkast matið eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Í kjölfar dóma um ógildingu á heimild til eignarnáms og leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2, ásamt ógildingu á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga, hefur Landsnet ákveðið að gera nýtt umhverfismat sem mun m.a. meta umhverfisáhrif valkosta sem fela í sér jarðstrengi.
Samráð
Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi Suðurnesjalínu 2 í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaaðilar fyrir utan landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu.
Markmiðið með stofnun þessara vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum. Við hvetjum alla aðila til að fylgjast með hér á heimasíðunni þar sem upplýsingar um framvindu verkefnisins verða settar inn sem og fundargerðir og annað sem viðkemur verkefninu
Hafðu samband
Hægt er senda inn fyrirspurnir og ábendingar undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið. Eins er áhugavert að fylgjast með fésbókarsíðunni okkar en þar eru nýjustu fréttir er varða starfsemi fyrirtækisins uppfærðar daglega.